Erlent

Grimmdarverk í Austur-Kongó

Uppreisnarmenn myrtu rúmlega 60 manns, nauðguðu tugum og kveiktu í hundruðum húsa bænum Nyabiondo í Austur-Kongó seint á síðasta ári. Sendinefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna greindi frá þessu í dag, en grimmdarverkin voru hluti af margra vikna deilum og ringulreið sem ríkti landinu. Talsmaður nefndarinnar segir herdeildir, sem áður nutu stuðnings yfirvalda í Rúanda en eiga nú að heyra undir her Kongós, hafa staðið á bak við árásirnar en herdeildirnar hafa ítrekað barist um völd við hermenn hliðholla stjórnvöldum í höfuðborginni Kinshasa. Bundinn var endi á fimm ára stríð í landinu árið 2003 með undirritun friðarsamninga en ástandið hefur verið ótryggt í landinu þrátt fyrir það og lítið gert til þess að koma á friði í austurhluta landsins þar sem uppreisnarmenn ráða lögum og lofum. Alls hafa 3,8 milljónir manna látist frá árinu 1998, ýmist vegna átaka eða hungurs og sjúkdóma, og talið er að 1.000 manns látist daglega vegna ástandsins í Austur-Kongó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×