Innlent

Lifir fyrir börnin sín

Á sjúkrahúsi eftir bílslys. Særún mun halda upp á aðfangadag á sjúkrahúsinu. Hún fær sérstakt herbergi þar sem hún og fjölskyldan borðar góðan mat á aðfangadag.
Á sjúkrahúsi eftir bílslys. Særún mun halda upp á aðfangadag á sjúkrahúsinu. Hún fær sérstakt herbergi þar sem hún og fjölskyldan borðar góðan mat á aðfangadag.
„Líðanin er ekkert voðalega góð,“ segir Særún Sveinsdóttir Williams sem um miðjan nóvember lenti í bílslysi í Omaha í Nebraska þar sem hún býr. Í slysinu missti hún báða fótleggi fyrir ofan hné.

„Ég er með stöðuga verki. Stundum eru þeir mjög slæmir en ég er á mjög sterkjum verkalyfjum sem slá aðeins á þetta.“

Særún segir að þótt líkamlega heilsan sé ekki mjög góð sé andlega heilsan skárri.

„Hún er að verða betri. Ég reyni að horfa björtum augum á framtíðina. Ég veit að ég þarf bara að sætta mig við að lifa svona. Ég á börnin mín og ég verð að lifa svona fyrir þau,“ segir Særún en þrjú af fimm börnum hennar búa hjá henni í Omaha. Hún segist hafa fengið mikinn stuðning frá börnunum sem eru eins mikið hjá henni á sjúkrahúsinu og mögulegt er.

Særún verður í viku til tíu daga á þessu sjúkrahúsi en síðan fer hún á annað sjúkrahús þar sem endurhæfing tekur við.

„Ég verð þar í fjórar til sex vikur. Endurhæfingin tekur náttúrulega miklu lengri tíma. Ég þarf að byggja efri hluta líkamans mjög vel upp og styrkja mig.“

Eftir sex til átta mánuði getur Særún fengið gervifætur og bindur hún þó nokkrar vonir við það.

„Þetta þarf allt að vera gróið áður en ég legg einhvern þunga á fæturna. Mig langar að prufa gervi­fætur en hvort mér eigi eftir að líka það er svo annað mál.“

Röð tilviljana varð til þess að ekið var á Særúnu. Hún var á leið til vinnu að morgni dags þegar slysið varð. Hún ók pallbíl sem var hlaðinn pokum með haustlaufum þegar hún varð þess vör að nokkrir pokanna höfðu fallið af palli bílsins. Hún stöðvaði því bílinn til að kippa pokunum aftur upp á pallinn, en þegar hún var rétt um það bil að ljúka verkinu varð hún fyrir bíl.

Svo einkennilega vildi til að bílstjóri þess bíls, Kenneth Cooks, er samstarfsmaður Særúnar hjá flutningafyrirtækinu Deffenbaugh. Cooks steig út til þess að reyna að aðstoða Særúnu og vísa annarri umferð frá henni þar sem hún lá á götunni þegar kona keyrði á kyrrstæðan bíl Cooks. Varð hann fyrir bílnum, kastaðist um tuttugu metra og hlaut alvarlega höfuðáverka. Bíll Cooks endaði svo á Særúnu þar sem hún lá á götunni. Særún telur að það hafi verið þá sem hún missti fæturna. Bílstjóri þriðja bílsins slapp ómeiddur.

Særún segist lítið hafa heyrt frá Cooks.

„Honum var haldið sofandi lengi. Ég veit að það er búið að vekja hann núna en meira veit ég ekki. Börnin hans hafa heimsótt mig og mér þykir vænt um það.“

Þó að Særún hafi búið í Bandaríkjunum um árabil heldur hún alltaf upp á aðfangadag. Að þessu sinni mun hún halda upp á jólin á sjúkrahúsinu.

„Ég fæ sérstakt herbergi þar sem ég get verið með fjölskyldunni. Þar verðum við með jólatré og borðum góðan mat. Þetta verður allt í lagi.“

Þeir sem vilja leggja Særúnu lið er bent á söfnunarreikning númer 1150-05-414746 með kennitölu 010560-2689.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×