Innlent

Tveir af fjörutíu hafa sótt um fé

Aðeins tveir grunnskólar af fjörutíu í Reykjavík hafa sótt um fjármagn til að bæta nemendum upp það tjón, sem hlaust af verkfalli grunnskólakennara. Dæmi eru um að bæði kennarar og foreldrar setji sig á móti því að kennslustundum barnanna fjölgi, segir formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Borgarráð samþykkti fyrir áramót að veita fimmtíu milljónir til grunnskóla borgarinnar vegna launakostnaðar sem af því hlytist að kennslustundum yrði fjölgað. Þannig átti að bæta nemendum og þá sérstaklega 10. bekkingum upp það tjón sem hlaust af átta vikna löngu verkfalli. Gert var ráð fyrir allt að 60 klukkustundum á deild í hverjum skóla en skólunum er í sjálfsvald sett hvernig að því verður staðið, hvort kenna eigi á laugardögum, frídögum eða lengja einhverja skóladaga. Runólfur Birgir Leifsson hjá fjármálasviði Fræðsluráðs Reykjavíkur segir að tveir skólar, Seljaskóli og Foldaskóli, hafi sótt formlega um aukið fé en margir aðrir skólastjórar hafi haft samband við hann og allir vinni þeir þessu máli. Sú vinna gæti þó verið til einskis. Kennarar þurfa að samþykkja að taka á sig yfirvinnuna, en Ólafur Loftsson, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, segist vita af skólum þar sem andstaðan hefur verið slík að ekki verður hægt að bjóða nemendum upp á fleiri kennslustundir þrátt fyrir að fjármagnið bíði. Hann segir mjög skiptar skoðanir um það hvort bæta eigi nemendum kennslutapið eða ekki. Sumum finnist það ekki vera á sinni könnu að bæta tapið. Ýmislegt annað spili inn í. Skólar, kennarar og foreldrar þurfi að vinna saman að þessu og sumir hafi skipulagt frí auk þess sem börn séu í alls kyns tómstundum. Þetta þurfi allt að smella saman svo hægt sé að koma þessu í framkvæmd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×