Erlent

Impregilo byggir Sikileyjarbrú

Ítölsk stjórnvöld gengu frá samningi við verktakafyrirtækið Impregilo í dag um byggingu brúar frá Sikiley til meginlands Ítalíu. Þetta er fyrsta eiginlega landtenging Sikileyjar við meginlandið en brúin verður lengsta hengibrú í heimi. Impregilo átti besta tilboðið í framkvæmdirnar en útboð þeirra hljóðaði upp á um 285 milljarða íslenskra króna. Stjórnvöld gera ráð fyrir að framkvæmdirnar muni kosta um 324 milljarða íslenskra króna en brúin verður ein flóknasta byggingaframkvæmd í sögu Ítalíu. Þetta er fyrsta brúin sem tengir Sikiley við Ítalíu en bein landtenging hefur lengi verið draumur margra. Brúin mun verða alls 3,3 kílómetra löng hengibrú eða um þrisvar sinnum lengri en Golden Gate brúin í San Francisco. Tveir turnar munu halda brúnni uppi en þeir verða um 383 metrar á hæð og þar með hærri en Eiffel turninn. Ráðgert er að framkvæmdirnar hefjist á næsta ári og verði lokið árið 2012. Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, lagði áherslur á byggingu brúarinnar í kosningunum árið 2001 en hann sagði verkefnið vera mikilvægt fyrir suðurhluta Ítalíu en þar er mikið atvinnuleysi. Talið er að framkvæmdirnar muni skapa um 40 þúsund störf. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×