Erlent

Þrjátíu biðu bana í Tal Afar

Þrjátíu verðandi hermenn biðu bana í sjálfsmorðsprengjuárás í borginni Tal Afar í Írak í gær. Sátt virðist vera að skapast á milli stjórnmálamanna um stjórnarskrárdrög landsins. Tvær hryðjuverkaárásir á jafnmörgum dögum hafa verið framdar í borginni Tal Afar í norðvestanverðu Írak. Í fyrradag dóu 27 borgarar í bílsprengjuárás á markaðstorgi og í gær fórust þrjátíu til viðbótar þegar sjálfsmorðsprengjumaður gekk inn í hóp manna sem biðu eftir því að skrá sig í íraska herinn. Fjöldi annarra hefur látið lífið í öðrum árásum síðustu daga og augljóst er að uppreisnarmenn ætla að valda sem mestum usla í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um drög að stjórnarskrá landsins á laugardaginn. Í gær afgreiddi Íraksþing breytingar á drögunum sem gera ráð fyrir að loknum þingkosningum í desember verði sett á fót ný stjórnarskrárnefnd sem breyti plagginu svo það verði súnníum frekar að skapi. Með þessu er vonast til að súnníar greiði frumvarpinu atkvæði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×