Erlent

Sagður hafa stytt sér aldur

Ghazi Kanaan, innanríkisráðherra Sýrlands og yfirmaður leyniþjónustu landsins í Líbanon, fannst látinn á skrifstofu sinni í gær, að sögn sýrlenskra stjórnvalda. Tvær vikur eru þangað til skýrsla rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna um morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, liggur fyrir og því leikur grunur á að valdamenn í Damaskus hafi látið ráða hann af dögum til að forða sjálfum sér frá alþjóðlegum refsiaðgerðum. „Ghazi Kanaan, liðsforingi og innanríkisráðherra framdi sjálfsmorð á skrifstofu sinni nú laust fyrir hádegi. Yfirvöld rannsaka málið," var texti fréttatilkynningar sem stjórnvöld í Damaskus sendu frá sér í gær. Kanaan var yfirmaður sýrlensku leyniþjónustunnar í Líbanon til ársins 2003 en sú staða jafngilti í raun landsstjóraembætti þar sem sá sem henni gegndi réði í raun hverjir skipuðu áhrifastöður í landinu. Nokkrum klukkustundum áður en Kanaan dó hringdi hann í líbanska útvarpsstöð og neitaði allri hlutdeild í morðinu á Rafik Hariri. Hann staðhæfði að auki að Sýrlendingar hefðu alltaf borið hagsmuni Líbana fyrir brjósti. „Þetta er líklega síðasta yfirlýsingin sem ég get flutt," sagði hann að lokum. Tvær vikur eru þangað til að rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna skilar skýrslu sinni um morðið á Hariri en í síðasta mánuði var skýrt frá því að líbanskir leyniþjónustumenn með sterk tengsl við sýrlensku stjórnina hefðu skipulagt tilræðið. Kanaan var á dögunum yfirheyrður um málið og er talið líklegt að vitnisburður hans gefi vísbendingar um hlutdeild Sýrlendinga í morðinu. Þann vitnisburð gæti hins vegar reynst erfitt að sannreyna fyrst vitnið er ekki lengur í tölu lifenda. Fjölmiðlar í Mið-Austurlöndum taka því fregnum af sjálfsmorði Kanaan með fyrirvara. Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera setti orðið sjálfsmorð innan gæsalappa í fyrirsögn í frétt á vefútgáfu sinni þar sem rætt var við félaga í Bræðralagi múslima, stjórnarandstöðuhreyfingu sem bönnuð hefur verið í Sýrlandi. Sá taldi líklegt að Assad Sýrlandsforseti hefði látið ráða hann af dögum til að bjarga stjórninni frá alþjóðlegum refsiaðgerðum. Al-Arabiya birti viðtal við líbanskan blaðamann sem taldi líkur á að um pólitískt morð væri að ræða. „Ómögulegt er að segja hvort hann framdi sjálfsmorð eða var gert að binda enda á líf sitt. Margir í Sýrlandi vilja stinga staðreyndum um afskipti stjórnarinnar af Líbanon undir stól." >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×