Lífið

Í hnapphelduna í íröksku sjónvarpi

Raunveruleikasjónvarpsþættir tröllríða heimsbyggðinni. Brúðkaupsþættir teljast til þessa flokks og eru víst ekki sérstaklega frumlegir - nema þá kannski sá sem íröksk sjónvarpsstöð hefur sett á dagskrá. Flestir raunveruleikaþættirnir ganga út á venjulegt fólk undir heldur óvenjulegum kringumstæðum. Í Írak má segja að forsendurnar séu þveröfugar: fólk, sem alla jafna býr við heldur óvenjulegar aðstæður - stríðsástand - er sýnt gera nokkuð sem er í eðli sínu ósköp venjulegt: gifta sig. Áhorfendur fengu að fylgjast með parinu velja sér réttu fötin og brúðargjafir. Framleiðendur þáttarins borguðu brósann. Allt leit þetta út eins og í Hollywood-brúðkaupi þegar þátturinn var sendur út en sannleikurinn er því miður ekki svona fallegur. Tveimur bílum var til dæmis stolið frá parinu, þar af var það vopnaður bílræningi sem stal öðrum. Gestir á leiðinni úr brúðkaupsveislunni sluppu naumlega frá bílsprengjuárás. Áhorfendur brugðust heldur ekki allir vel við því þegar parið valdi hring því þá snerti brúðguminn hönd brúðarinnar. Það er ekki vel séð. Hvort sem þessi raunveruleikaþáttur er raunverulegur eður ei fellur hann áhorfendum sjónvarpsstöðvarinnar Al Sharqia vel því milljónir fylgjast með í hverri viku. Brúðhjónin Ahmed og Marwa eru orðin fræg eiginmanninum til mikillar ánægju en eiginkonunni ekki, en hún leiðir fólk hjá sér sem tekur eftir henni og neitar að gefa því eiginhandaráritanir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.