Erlent

Deilan magnast

Deila Japana og Kínverja harðnar enn. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, reyndi að miðla málum í gær en án árangurs. Mikil spenna hefur verið í samskiptum Japana og Kínverja undanfarnar vikur og magnaðist hún enn frekar í gær. Þá tilkynntu japanskir þingmenn að þeir ætluðu að heimsækja sögustað sem helgaður er hermönnum sem látist hafa í orrustum. Kínverjar líta á förina sem beina ögrun við sig en þarlend stjórnvöld hafa gagnrýnt japanska kennslubók þar sem fjöður er dregin yfir grimmdarverk Japana í Kína á árum áður. Til að bæta gráu ofan á svart hafnaði hæstiréttur í Tókýó bótakröfum fórnarlamba grimmdarverka Japana í Kína á fjórða og fimmta áratugnum en talið er að 250.000 Kínverjar hafi dáið af þeirra völdum á þessu tímabili, meðal annars í sýklavopnaárásum. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í gær Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, og Hu Jintao, forseta Kína, til að ræða málin um helgina en þá fer fram leiðtogafundur Afríku- og Asíuríkja. Friðarumleitunum Annans var hins vegar fálega tekið í höfuðborgum beggja ríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×