Erlent

Hleyptu upp kosningafundi í London

Öfgamenn hleyptu í dag upp kosningafundi hófsamra múslíma í Lundúnum. Þeir hrópuðu ókvæðisorð gegn bresku stjórninni. Það var hið hófsama múslímaráð Bretlands sem stóð fyrir fundinum sem var haldinn í bænahúsi í Lundúnum. Fundurinn var rétt nýhafinn þegar um tuttugu menn ruddust inn í bænahúsið. Margir þeirra huldu andlit sitt með klútum. Þeir hrópuðu slagorð gegn bresku ríkisstjórninni um Afganistan, Írak og Guantanamo-flóa og sökuðu múslímaráðið um svik við málstað múslíma. Þeir hvöttu einnig trúbræður sína til þess að hunsa kosningarnar sem verða haldnar í byrjun næsta mánaðar. Enginn mannanna var vopnaður og ekki kom til alvarlegra átaka. Engu að síður er mönnum órótt vegna þessa atburðar. Bresku slúðurblöðin tóku þó þessari innrás fagnandi enda þykir þeim kosningabaráttan heldur dauf. Til marks um það hafa nokkur þeirra velt sér upp úr því hversu brúnn og sællegur Tony Blair forsætisráðherra sé allt í einu orðinn. Blöðin voru með vangaveltur um hvort hann hefði borið á sig brúnkukrem eða tekið einhverjar pillur til þess að fá lit. Blair segir það mestu vitleysu, hann hafi einfaldlega setið úti í sólinni í garðinum í Downing-stræti 10 þegar hann var að fara yfir ýmsa pappíra og plögg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×