Erlent

Persson íhugar framtíð sína

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Jafnaðarmannaflokksins, ætlar að ákveða það fyrir flokksþing í haust hvort hann gefi áfram kost á sér sem formaður. Frá þessu greindi forsætisráðherrann í dag, en hann hafði áður lýst því yfir að hann hygðist ekki standa upp úr formannsstóli fyrir þingkosningar sem fram fara á næsta ári. Fylgi við hann og Jafnaðarmannaflokkinn hefur hins vegar minnkað að undanförnu og því hafa þær raddir orðið háværari sem krefjast þess að hann láti staðar numið. Sænska ríkisstjórnin hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að bregðast seint við hamförunum annan dag jóla í Suðaustur-Asíu, en þar létust hundruð sænskra ferðamanna. Þá hefur Persson einnig mistekist að draga úr atvinnuleysi í landinu og auk þess er talið að þjóðin sé farin að þreytast á honum, en hann hefur verið forsætisráðherra í níu ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×