Erlent

Gutierrez fær hæli í Brasilíu

Lucio Gutierrez, hinum brottrekna forseta Ekvadors, var í dag veitt pólitískt hæli í Brasilíu, daginn eftir að þing landsins vék honum úr embætti. Gutierrez leitaði til brasilíska sendiráðsins í Quito, höfuðborg Ekvadors, í gær í kjölfar brottvikningarinnar en eftirmaður hans, varaforsetinn Alfredo Palacio, hafði gefið út handtökuskipun á hendur honum. Brottvikningu Gutierrez má rekja til þeirrar ákvörðunar hans að skipta út dómurum í hæstarétti landsins og koma stuðningsmönnum sínum þar að, en fjölmargir hafa mótmælt þeirri ráðstöfun á götum úti undanfarna daga. Gutierrez var kjörinn forseti fyrir um þremur árum en fylgi við hann hefur smám saman dvínað vegna áætlana hans í efnahagsmálum. Þar hefur hann fylgt ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og innleitt markaðsbúskap.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×