Erlent

Vargöldin heldur áfram

Ellefu manns fórust í Írak í gær þegar flugskeytum var skotið á þyrlu þeirra. Auk þess var forsætisráðherra írösku bráðabirgðastjórnarinnar sýnt banatilræði. Áhyggjur manna af átökum trúarhópa í landinu fara vaxandi. Ekkert lát virðist á voðaverkum í Írak. Í gær var flugskeytum skotið að þyrlu norður af Bagdad með þeim afleiðingum að allir farþegar hennar fórust. Þar á meðal voru þrír Búlgarir sem flugu vélinni og sex Bandaríkjamenn sem voru verktakar hjá bandarísku öryggisfyrirtæki. Þeir voru á leiðinni til borgarinnar Tikrit. Enginn hefur lýst ábyrgð á verknaðinum á hendur sér. Miðvikudagurinn var ekki síður blóðugur en þá fórust 13 manns í tilræðum víða um land, auk 21 sem særðist illa. Einni sprengjuárásinni var beint gegn bílalest Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, en hann slapp ómeiddur. Fylgismenn al-Kaída í Írak lýstu því yfir í kjölfarið að þeir hefðu verið að verki. "Allawi slapp, en þótt ein ör missir marks þá eru margar eftir í örvamælinum," sagði á vefsíðu þeirra. Kennsl hafa verið borin á lík 19 manna sem fundust á íþróttavelli nálægt höfuðborginni en þeir höfðu verið teknir af lífi. Ólíkt því sem talið var í fyrstu þá voru mennirnir ekki hermenn heldur fiskimenn sem ætluðu að halda upp á afmæli spámannsins. Ekki er vitað hver var að verki. Írakar eru orðnir óþreyjufullir eftir að stjórnmálamenn þeirra myndi starfhæfa ríkisstjórn. Tilkynna átti um myndun hennar í gær en því hefur enn verið frestað. Óttast er að upp úr sé að sjóða í samskiptum trúarhópa í landinu og gaf líkfundurinn í Tígris í vikubyrjun þeim röddum byr undir báða vængi. Þá fundust lík af 50 sjíum sem hafði verið rænt í bænum Madain. Þó hefur verið á það bent að harkalegar aðgerðir stjórnvalda gegn gíslatökumönnunum geti hafa leitt til óðagots í þeirra röðum með þessum hörmulegu afleiðingum. Almenningur virðist enn sem komið er ekki ætla að láta draga sig út í trúarbragðastyrjöld, á þessari stundu eru það aðeins öfgahópar sem reyna að spilla friðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×