Erlent

Gutierrez flúinn til Brasilíu

Brasilísk stjórnvöld hafa skotið skjólshúsi yfir Lucio Gutierrez, fyrrum forseta Ekvador, sem ekvadorska þingið svipti völdum á miðvikudag. Gutierrez, sem um hríð hefur verið sakaður um valdníðslu, dvelur nú í brasilíska sendiráðinu í Quito en verður fluttur til Brasilíu innan skamms. Alfredo Palacio varaforseti hefur tekið við stjórnartaumunum. Hann hefur þegar lofað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnskipan landsins. Gutierrez er þriðji forseti Ekvador sem hefur verið settur af síðastliðin átta ár. Margir Ekvadorar eru æfir yfir að hann fái að yfirgefa landið en verði ekki látinn svara til saka. Hundruð manna flykktust að brasíliska sendiráðinu og kröfðust þess að hann yrði framseldur. Mótmælasamkoman leystist friðsamlega upp þegar lögreglan kom á vettvang. Gutierrez varð forseti árið 2003 og gaf sig út fyrir að gæta hagsmuna hinna fátæku. Hann reitti hins vegar marga landa sinna til reiði með niðurskurði í efnahagsmálum. Kornið sem fyllti mælinn var þegar hann sniðgekk hæstarétt landsins fyrir skemmstu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×