Innlent

Nýtt útgáfufélag tekur við Vikudegi

Hildingur ehf. sem er dótturfélag KEA, Kristján Kristjánsson, Birgir Guðmundsson og Ásprent Stíll hafa stofnað útgáfufélag sem keypt hefur allar eignir Vikudags á Akureyri og mun félagið hefja rekstur blaðsins frá og með áramótum.

Kristján Kristjánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hefur verið ráðinn ritstjóri blaðsins og framkvæmdastjóri útgáfunnar. Nýja útgáfustjórn skipa Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Birgir Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri og G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls.

Kristján Kristjánsson hefur starfað sem blaðamaður og ljósmyndari hjá Morgunblaðinu á Akureyri frá árinu 1995. Áður var hann blaðamaður og síðar fréttastjóri Dags frá árinu 1985 og á hann því að baki 20 ár við blaðamennsku á Norðurlandi. Vikudagur mun taka umtalsverðum breytingum við þessi eigendaskipti og er markmiðið að efla og styrkja blaðið á öllum sviðum.

Skrifstofur Vikudags verða að Óseyri 2 og mun fyrsta blað nýrra eigenda koma út þann 12. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×