Innlent

Aflamark úthafsrækju verði 10 þúsund tonn

MYND/Stefán

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherrahefur í samræmi við tillögu Hafrannsóknastofnunar, ákveðið að heildaraflamark úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2005-2006 verði 10 þúsund tonn, en það er sama og lagt var til til bráðabirgða í upphafi sumars.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnunn. Þar kemur einnig fram að niðurstöður stofnmælinga Hafrannsóknastofnunar bendi til að stofn úthafsrækju sé í lágmarki eða svipaður að stærð og í fyrra.Léleg nýliðun og mikil þorskgengd á rækjuslóð benda jafnframt til þess að rækjustofninn minnki enn frekar á næstu árum.

Úthafsrækjuaflinn minnkaði úr 16 þúsund tonnum árið 2004 í fjögur þúsund tonn árið 2005. Undanfarin fjögur ár hefur rækjuaflinn verið minni en leyfilegur hámarksafli.

Vísitala í stofnmælingu úthafsrækju lækkaði verulega á árinum 2002-2004 en hækkaði um tæp 20% á árinu 2005. Vístalan er þó enn mjög lág. Í stofnmælingunni var lítið um ungrækju og vísitala eins og tveggja ára rækju mældist mjög lág. Stofnmæling úthafsrækju bendir til mikillar þorskgengdar á rækjumiðunum árin 2003-2005 eða svipaðrar og á árunum 1996-98 þegar rækjustofninn minnkaði verulega. Samkvæmt útreikningum hefur dánartala rækju undanfarin ár ráðist meira af þorskgengd á Norður- og Austurmiðum en aflanum sem tekinn er úr veiðistofninum á hverju ári.

Hafrannsóknastofnun telur óvarlegt að veiða rækju í kappi við þorskinn og telur rétt að sókn sé væg þegar náttúruleg afföll eru mikil. Í ljósi ofangreindra upplýsinga um ástand úthafsrækjustofnsins telur Hafrannsóknastofnun að ekki séu forsendur til að breyta aflamarkinu sem lagt var til í upphafi vertíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×