Innlent

Umferð stýrt um kirkjugarða

MYND/Eól

Það er fastur liður í jólhaldi flestra borgarbúa að vitja látinna ættingja og vina í kirkjugörðum. Mikil umferð er þó á aðfangadag og jóladag og því mun lögregla aðstoða við að halda umferð greiðri fyrir gesti garðanna.

Umferðateppur eru næsta daglegt brauð á götum Reykjavíkur en það er einna helst um jól og áramót sem slíkar teppur geta myndast í og við kirkjugarða borgarbúa. Lögreglan í Reykjavík mun því fylgjast með og eftir atvikum stýra umferð við Fossvogskirkjugarð og Gufuneskirkjugarð. Í Gufunesgarði verður innakstur inn í garðinn um Gagnveg og ekið út úr honum inn á Borgaveg.

Þeir sem ætla í Fossvogskirkjugarð er bent á leið vestur í áttina að miðborginni og að greiðfært er um Öskjuhlíð yfir á Flugvallarveg, framhjá Hótel Loftleiðum og inn á Bústaðaveg.

Einnig er vert að benda ökumönnum sem eiga leið frá Fossvogskirkjugarði suður í Kópavog, Garðabæ eða Hafnafjörð að opnað verður fyrir umferð frá Suðurhlíð og inn á vegslóða að Nesti í Fossvogi. Lögreglan hvetur ökumenn til að nota þessar leiðir til að forðast umferðarteppur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×