Innlent

Vilja ræða við ráðherra um breytingar á póstþjónustu við Ísafjarðardjúp

MYND/Teitur

Þrír þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa óskað eftir því við Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra að kallaður verði saman fundur þingmanna kjördæmisins með heimamönnum og forsvarsmönnum Íslandspósts vegna breytinga á póstþjónustu við Ísafjarðardjúp sem taka eiga gildi um áramótin. Þingmennirnir, sem eru Jóhann Ársælsson, Jón Bjarnason og Sigurjón Þórðarson, segja breytingarnar hafa komið mjög flatt upp á heimamenn.

Í bréfinu sem sent var samgönguráðherra segir:

Vakin er athygli á því að Íslandspóstur hf hefur boðað grundvallarbreytingar á póstþjónustu við Ísafjarðardjúp, og ef til vill víðar á Vestfjörðum, sem gert er ráð fyrir að taki gildi frá og með næstu áramótum.

Landpósturinn hefur gengt fjölþættu þjónustuhlutverki við íbúana í Ísafjarðardjúpi en nú á að skera af þessa þjónustu samkvæmt yfirlýsingum forstöðumanna Íslandspósts hf. Einnig virðist ætlunin að skilja póst Djúpmanna eftir í gámi vörslulausan á víðavangi.

Breytingarnar hafa komið mjög flatt upp á heimamenn enda hafa þeir mótmælt þeim kröftuglega. Í því sambandi er vert að minna á að engar almenningssamgöngur eru að vetrarlagi við Ísafjarðardjúp.

Í ljósi ofanritaðs óskum við undirritaðir þingmenn Norðvesturkjördæmis eftir að kallaður verði saman fundur þingmanna kjördæmisins með heimamönnum og forsvarsmönnum Íslandspósts svo fljótt sem verða má. Á fundinum verði farið yfir stöðuna og rætt hvernig best megi standa að sem víðtækastri almannaþjónustu við íbúana á svæðinu. Þjónusta landpóstanna er þar mikilvægur þáttur. Jafnframt óskum við eftir að breytingum á skipan póstmála á þessu svæði verði slegið á frest uns fundin er leið sem hentar íbúunum best og full sátt verður um.

Virðingarfyllst,

Jóhann Ársælsson, Jón Bjarnason og Sigurjón Þórðarson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×