Innlent

Hætt við uppboð á eigum Bobby Fischer

MYND/Pjetur

Uppboð á eigum Bobby Fischer á uppboðsvefnum e-bay sem sagt var frá í fréttum NFS í síðustu viku hefur nú verið dregið til baka. Seljandinn segist reiðubúinn að afhenda Fischer eigur sínar aftur fáist einhver til að greiða flutningskostnað.

Fréttastofa NFS hafði samband við seljanda á fyrir viku síðan og benti honum á að Fischer liti á að um uppboð á þýfi væri að ræða. Seljandinn svaraði og sagðist ítrekað hafa reynt að ná tali af Fischer og láta hann vita að hann vildi koma eigunum til hans en bar því við að erfitt væri að ná tali af Fischer.

Hann setti sig þá í samband við Einar S. Einarsson, vin Fischers. Seljandinn vildi ekki gefa honum upp nafn sitt en sagðist þekkja Fischer og hafa verið með honum í Belgíu. Seljandinn sagðist einnig vera tilbúinn að gefa varningnn eftir og senda Fischer ef flutningskostnaður fengist greiddur.

Á meðan samskiptum Einars og seljanda stóð kom tilboð í búslóðina frá Holland sem seljandinn dró til baka tveimur dögum síðoar. Fram kemur í upplýsingum frá seljanda að mörg háskólabókasöfn og einkasafnarar hafi sýnt áhuga á að komast yfir reitur meistarans. Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær eigur skáksnillingsins koma til landsins en það mun væntanlega skýrast í janúar samkvæmt upplýsingum frá vinum hans hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×