Innlent

Útblástur koltvísýrings aukist um 14,5% í Reykjavík

MYND/E.Ól.

Í nýrri skýrslu Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar er fjallað um sex svokallaða megin umhverfisvísa og gefa fimm þeirra vísbendingar um áhrif samgangna á landi á umhverfið í höfuðborginni. Sá sjötti snýr hins vegar að orkunotkun.

Í skýrslunni greinir meðal annars frá því að vetrargildi svifryks hafi farið lækkandi frá árinu 1995, en séu einungis skoðuð síðastliðin þrjú ár kemur í ljós að svifrykið hefur aukist. Nýverið hvatti Umhverfissvið Reykjavíkurborgar þá sem eru viðkvæmir í öndunarfærum að halda sig fjarri fjölförnum umferðargötum vegna mikils svifryks en svifryksmengun í Reykjavík hefur um tuttugu sinnum farið yfir heilsuverndarmörk á árinu.

Einnig segir í skýrslunni að útblástur koltvísýrings frá vegsamgöngum í Reykjavík hafi vaxið um hátt í fimmtán prósent á árunum 1999 til 2004. Þó dró úr útblæstrinum milli áranna 2003 og 2004. Heildarfjöldi ökutækja í borginni hefur vaxið um fimmtán prósent á tímabilinu, þar af hefur bensínfólksbílum fjölgað um níu prósent og díselfólksbílum um tæp fimmtíu og tvö prósent.

Þá kemur fram í skýrslunni, hvað orkunotkun borgarbúa varðar, að á milli áranna 2002 og 2004 hefur orkunotkun, mæld í kílówattstundum á hvern íbúa Reykjavíkur, aukist um tæp fimm prósent. Orkunotkun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis hefur aukist um 12%, rafmagnsnotkun um 7% en notkun á heitu vatni hefur nánast staðið í stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×