Erlent

Blair gefur eftir

Bretar eru tilbúnir að gefa eftir hluta af endurgreiðslum sínum til að sátt náist um nýtt fjárlagafrumvarp innan Evrópusambandsins.

Umræðan um nýtt fjárlagafrumvarpið fyrir árin 2007 til 2013 hefur verið í algjörum hnút, enda virðist enginn tilbúinn að fórna neinu. Frakkar neita að gefa eftir gríðarlega landbúnaðarstyrki og hingað til hafa Bretar ekki viljað fórna neinu af himinháum endurgreiðslum sem Margret Thatcher samdi um á sínum tíma, auk þess sem tíu ríkin nýju vilja fá sinn skerf af kökunni, enda þau lönd sem einna helst þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.

Nú er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að eitthvað þokist í samningsátt á næstunni. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands mun í dag bjóðast til að gefa eftir hluta rúmlega fjögur hundruð milljarða endurgreiðslum sem Bretar sömdu um á sínum tíma. Á móti vill hann að Frakkar geri slíkt hið sama varðandi landbúnaðarstyrkina og eins að hin nýju ríki slaki aðeins á kröfum sínum.

Eins og fyrri daginn gæti þó reynst erfitt að sætta alla og þannig voru fyrstu viðbrögð frá Eistum við tillögunum til að mynda ekki jákvæð. Blair bindur þó vonir við að samkomulag náist fyrir árslok, þegar Bretar gefa eftir forsæti í Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×