Erlent

Barnamjólk tekin úr verslunum vegna bleks

Milljónir lítra af barnamjólk frá matvælarisanum Nestle hafa verið fjarlægðar úr verslunum eftir að blek fannst í mjólkinni. Stormur í vatnsglasi, segir forstjóri fyrirtækisins.

Ítalska lögreglan lagði í gær hald á þrjátíu milljónir lítra af barnamjólk eftir að leifar af bleki fundust við rannsókn. Í kjölfarið lét Nestle fjarlægja mjólkina úr hillum verslana á Ítalíu, á Spáni, í Portúgal og í Frakklandi, en undirstrikaði að blekmagnið væri svo lítið að engin hætta stafaði af því. Blekið er sagt koma úr Tetra-Pack fernum sem mjólkin er seld í. Um er að ræða tegundirnar Latte Mio og Nidina eitt og tvö.

Forstjóri Nestle segir málið storm í vatnsglasi, en mæður í þeim löndum þar sem mjólkin er seld eru ekki sammála og sögðu þær að fyrirtækið væri að leika sér að lífi barna þeirra.

Barnamjólkin sem blekeitrunin fannst í hefur aldrei verið seld hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×