Erlent

Átta milljónir án vatns í Harbin í Kína

MYND/AP

Yfir átta milljónir manna eru nú án vatns í borginni Harbin í Kína. Mikil skelfing greip um sig meðal íbúa borgarinnar þegar ákveðið var að loka fyrir vatnsveitu borgarinnar en ástæðan var sprenging í efnaverksmiðju sem varð á dögunum. Sprengingin varð fimm manns að bana og særðust yfir sextíu í henni.

Til þess að tryggja öryggi íbúa borgarinnar ákváðu yfirvöld að skrúfa fyrir vatnið í fjóra daga. Verksmiðjan er við ána Songhua sem borgin Harbin liggur einnig við. Ekki hefur orðið vart við neitt óvenjulegt í ánni en talið var öruggara að skrúfa fyrir vatnið þar sem mengun gæti komið fram á næstu dögum.

Íbúar borgarinnar eru sem fyrr segir yfir átta milljón talsins og hefur fólk hamstrað bæði vatn og mat frá því á sunnudag þegar fréttist af væntanlegum vatnslokunum sem tóku gildi í gærkvöld. Stjórnvöld útiloka ekki að lengri tími geti liðið þar til skrúfað verði frá vatninu en það fer eftir því hvort eitthvað gruggugt finnist í ánni.

Eins og gefur að skilja hefur sala á vatni margfaldast en margir íbúanna segjast ætla að halda áfram að kaupa vatn í flöskum, til drykkjar, eftir að skrúfað hefur verið frá vatninu á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×