Innlent

Börnum úr Arnarneshreppi hafnað um leiksskólapláss á Akureyri

Skólanefnd Akureyrarbæjar hefur hafnað fjórum börnum úr nágrannahreppnum, Arnarneshreppi, um leikskólavist í bænum. Oddviti hreppsins segir bagalegt að nefndin skuli hafa hafnað börnunum um leikskólavist enda hafi hún fengið þau skilboð að ekkert væri því til fyrirstöðu að þau fengju inni á leikskólum bæjarins.

Hjördís Sigursteinsdóttir, oddviti Arnarneshrepps, segist ekki alls kostar sátt við að börnunum fjórum hafi verið synjað um leikskólavist af Skólanefnd Akureyrar í gær, enda hafi starfsmenn nefndarinnar verið búnir að tjá henni að um auðsótt mál væri að ræða enda væru engir biðlistar á Akureyri.

Skólanefndin var þessu hins vegar ósammála og hafnaði erindinu. Oddvitin segir að íbúar í hreppnum verði því að hugsa stöðuna upp á nýtt. Arnarneshreppur er tæplega 180 manna sveitahreppur í Eyjafirði sem ekki rekur leikskóla en börn úr hreppnum hafa sótt leikskóla í Hörgárbyggð en eftir að ásókn jókst í leikskólann þar var börnum úr Arnarneshreppi sagt upp plássum sínum en hreppurinn greiðir fullt mótframlag með börnunum til nágrannahreppsins.

Arnarneshreppuyr var eitt fjölmargra sveitarfélaga í Eyjafirði sem hafnaði stóru Eyjafjarðarsameiningunni á dögunum. Hvort enn sé ekki gróið um heilt milli granna og að það sé ástæða sinnaskipta hjá skólayfirvöldum á Akureyri kveðst Hjördís ekki vilja segja til um. Hún mun þó óska eftir frekari rökstuðningi í ljósi ósamræmis í svörum og afgreiðslu Akureyringanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×