Innlent

Hlutdeild bankanna í húsnæðislánum hefur stóraukist

Hlutdeild bankanna í húsnæðislánum hefur stóraukist síðastliðið ár. Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur þingkonu Samfylkingarinnar.

Meirihluti lántakenda greiðir hærri vexti en 4,9%. Jóhanna spurði annars vegar að því hver markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs í nýjum húsnæðislánum væri á þessu ári og hver hún hefði verið í samanburði við árið 2004. Í svari ráðherra kemur fram að það sem af er þessu ári hafi markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs á húsnæðislánamarkaði verið yfir 90% á landsbyggðinni en um 40% á höfuðborgarsvæðinu. Það er talsverð breyting frá fyrra ári sem væntanlega má skýra með innkomu bankanna í samkeppni á húsnæðislánamarkaði. Á árinu 2004 var enda markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs á landsbyggðinni rúm 95% en hlutdeild lána á höfuðborgarsvæðinu 65%. Ef litið er til hlutdeildar Íbúðalánasjóðs í útistandandi lánum á húsnæðismarkaði, á fyrsta ársfjóðrðungi þessa árs, má sjá að heildarhlutdeild Íbúðalánasjóðs var um 56%, hlutdeild bankanna í kringum 31% og lífeyrissjóða um 13%. Á sama tíma fyrir ári var hins staðan hins vegar allt önnur; en þá var hlutdeild bankanna einungis 5%, eða 8 prósentustigum minna en í ár, og hlutdeild Íbúðalánasjóðs 80%. Jóhanna spurði ennfremur að því hversu margir lántakendur væru nú með 4,15% vexti á Íbúðalánum, en 4,15% eru lægstu mögulegu vextir húsnæðislána á markaði. Í svari ráðherra kemur fram að einungis 11% lántakenda séu með lán á lægstu vöxtum. 31% greiða vexti á bilinu 4,15-4.9% en langstærstur hlut lántakenda, eða 58% greiða enn hærri vexti en 4,9%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×