Lífið

Honeyboy Edwards kominn til landsins

Blúsarinn Honeyboy Edwards er kominn til landsins og ætlar að blúsa fyrir landsmenn um helgina. Hann er í fullu fjöri þrátt fyrir að vera kominn á tíræðisaldur.

Honeyboy fæddist í Mississippi árið 1915. Hann hefur á þessum níu áratugum ævi sinnar leikið blús með öllum helstu stjörnunum og er sjálfur enn að gefa út plötur. Aðspurður hvernig hann nenni ennþá að þvælast um heiminn að spila - og það alla leið til Íslands í nóvember - segir hann þetta vera líf sitt og yndi. Blúsinn eigi hug hans allan - þegar hann byrji að hljóðrita og vinna í öllu sem tengist því tendrist hann allur upp. „Svo ferðast ég um Bandaríkin og vítt og breitt um heiminn. Það á við mig," segir Honeyboy.

Honeyboy ætlar að spila með Michael Frank munnhörpuleikara og íslenskum blúsurum um helgina. Hann sagðist aðspurður ætla að spila það sem honum dytti í hug - hann hefði úr sex hundruð lögum að velja. Það eru áreiðanlega ekki margir níræðir menn sem geta handleikið gítar eins og Honeyboy.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.