Lífið

Fyrsta samkoma Óperudeiglunnar

Íslenska óperan boðar til fyrstu samkomu Óperudeiglunnar næstkomandi fimmtudag í Íslensku óperunni við Ingólfsstræti. Markmið Óperudeiglunnar er að stuðla að þvi að samdar verði nýjar óperur fyrir almenning. Efni fundarins verður kynning á Óperudeiglunni og umræður um áherslur og leiðir í framkvæmd verkefnisins.

Með Óperudeiglunni vill Íslenska óperan skapa vettvang fyrir tilraunastarf og nýsköpun á sviði óperulistar. Gengið er út frá því að kveikjan að nýrri óperu geti komið úr ýmsum átttum og að galdurinn sem þarf til að smíða góða óperu sé sjaldan á valdi einnar manneskju. Einnig er gengið út frá því að í kjarna óperulistar sé mannsröddin sem háþróað hljóðfæri. Tilgangurinn með Óperudeiglunni er að laða áhugasama einstaklinga með ólíka sérþekkingu til samstarfs um ákveðið tilraunaferli sem með tíð og tíma kann að fæða af sér áhugaverð verk fyrir óperuhús 21. aldar.

Óperudeiglu Íslensku óperunnar er ætlað að vera tvennt í senn: Annars vegar opinn vettvangur til umfjöllunar og skoðanaskipta um óperusmíði. Hins vegar skipulegt vinnuferli hópa einstaklinga með ólíka sérþekkingu sem vilja gera tilraunir með óperuformið í þeim tilgangi að skapa ný verk sem höfða til margra. Óperudeiglan mun halda opna málfundi og starfsfundi um óperulist þar sem jafnframt er fjallað á gagnrýninn hátt um verk tilraunahópanna.

Óperudeiglan er opin öllum sem áhuga hafa á óperulist en samkoman hefst klukkan 16:00.

Nánari upplýsingar um Óperudeigluna er að finna á Óperuvefnum, opera.is

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.