Innlent

Meðalhiti á Íslandi mun hækka

Hækkun meðalhita á Íslandi um tvær til þrjár gráður á næstu hundrað árum mun einkum koma fram í fækkun kuldakasta að vetri fremur en hærri sumarhita. Samkvæmt nýjum tölvuútreikningum mun hlýna meira inn til landsins en út við ströndina. Þá mun úrkoma aukast.

Fátt gleður Íslendinga meira en vísindakenningar um að það muni hlýna á landinu. En Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, segir að hlýna muni um tvær til þrjár gráður á næstu hundrað árunum.

Haraldur og nemendur hans í veðurfræði við Háskóla Íslands hafa í samvinnu við norska veðurfræðinga rýnt í útreikninga um hlýnun á svæðinu milli Grænlands og Skandinavíu og reynt jafnvel að meta breytingar í einstökum landshlutum á Íslandi. Haraldur segir að ýmislegt bendi til að hlýna muni meira að vetrarlagi en sumarlagi. Þessi hlýnun muni koma einna skýrast fram í færri kuldaköstum á veturnar og á vorin. Hlýnunin komi síður fram í sumarhitanum.

Þá eru vísbendingar um að hlýna muni meira inn til landsins en út við sjóinn. Haraldur segir afar óljóst hvort sólskinsdögum muni fjölga eða hvort vinur breytist. Þeir sem hafa hag af mikilli úrkomu gætu hins vegar glaðst. Haraldur segir margt benda til að meiri úrkoma verði ekki síst til fjalla en á láglendi verði minni aukning í úrkomu.

Vísindamennirnir telja sig sjá breytingu á úrkomu eftir landshlutum. Vetrarúrkoma mun aukast á á norðausturlandi og haust rigningar aukast á suðvesturlandi.

Líklegt má telja að ásýnd landsins muni breytast. Haraldur segir að miðað við þessar spár þá fari sumarhitinn á Hveravöllum upp í það sem hann er á láglendi núna og menn geti því rétt ímyndað sér hvað muni breytast. Haraldur segir þau vísindi sem notuð eru til þess að spá nokkuð traust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×