Innlent

Geir vill selja Landsvirkjun

Geir H. Haarde, verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir tímabært að selja Landsvirkjun eftir nokkur ár. Hann segir einkavæðingu ríkisfyrirtækja hafa losað um mikið fé og stuðlað að jöfnuði. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar orðið berir að miklum fordómum að hans mati. Þetta kom fram í ávarpi Geirs á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Geir fór vítt og breitt yfir svið landsmálanna og stefnu flokksins. Þá kom hann inn á Baugsmálið sem var líka einkar áberandi í ræðu formannsins. Hann sagði það kjarnaatriði í sjálfstæðisstefnunni að vinna gegn einokun og hringamyndun og það væri hlutverk ríkisins að vernda hina veikari í þeim efnum, þó svo sterk fyrirtæki í eðlilegri samkeppni verði auðvitað að fá að njóta sín. „Og það er dapurlegt að fylgjast með því hvernig tilteknir fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa snúið út úr merkri ræðu okkar formanns við setningu Landsfundar hvað þessi atriði varðar,“ sagði Geir. Geir hrósaði EES-samningnum og sagði Íslendinga njóta góðs af innri mörkuðum Evrópusambandsins og hinu fjórþætta frelsi, án þess að fórna mikilvægum hagsmunum á móti eins og stjórn á auðlindum sjávar. Hann sagði að engir áþreifanlegir íslenskir hagsmunir kalli á aðild að Evrópusambandinu, en margt mæli hins vegar á móti. Á meðal margra ókosta sé afsal á fullveldi Íslands, sjávarútvegsstefna ESB og geysileg miðstýring sem innbyggð sé í sambandið, auk þess sem beint aðildargjald yrði margir milljarðar á ári í sjóði sambandsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×