Erlent

Tíminn að renna út

Kuldi, vosbúð og hungur sverfa nú að bágstöddum á jarðskjálftasvæðunum í Pakistan. Allstór eftirskjálfti reið yfir svæðið í gær en olli þó ekki teljandi skemmdum. Jan Egeland, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður neyðaraðstoðar þeirra, heimsótti borgina Muzaffarabad í gær en hún varð illa úti í skjálftunum. Hann sagði að neyðin væri mikil og áríðandi væri að koma mat, lyfjum og teppum til þeirra tveggja milljóna manna sem eru heimilislaus á svæðinu. „Við erum að tapa kapphlaupinu við tímann," sagði Egeland og bætti því við að hann hefði aldrei séð aðra eins eyðileggingu. Skelfing greip um sig þegar skjálfti af stærðinni 5,6 skók hamfarasvæðið. Skemmdir af völdum eftirskjálftans virtust hverfandi en hann olli þó því að björgunaraðgerðir stöðvuðust um tíma. Töfin varð til þess að ekki tókst að bjarga konu í Muzaffarabad sem fundist hafði á lífi í húsarústum. Í gær áætluðu stjórnvöld í Pakistan að 35.000 manns hefðu beðið bana af völdum skjálftans tugir þúsunda væru slasaðir. Á Indlandi er talið að 1.350 manns hefðu farist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×