Erlent

Fuglaflensan komin til Evrópu

Staðfest hefur verið að alifuglar sem drápust í Tyrklandi í síðustu viku voru smitaðir af fuglaflensu af hinum hættulega H5N1-stofni. Eftir því sem veiran finnst víðar aukast líkurnar á að hún stökkbreytist og smitist á milli manna. Í síðustu viku fundust 1.800 alifuglar dauðir á búgarði í norðvesturhluta Tyrklands. Óttast var að banamein dýranna væri fuglaflensa og því var ákveðið að setja héraðið í sóttkví og slátra 7.600 fuglum sem grunur lék á að væru smitaðir. Þessi ótti reyndist svo sannarlega á rökum reistur því í gær staðfesti Markos Kyprianou, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að fuglaflensa af H5N1-stofni hefði fundist í fuglunum, en sá stofn hefur lagt um sextíu Asíubúa í gröfina undanfarin misseri. Kyprianou sagði að framkvæmdastjórnin hygðist leggja einn milljarð evra, eða 73 milljarða íslenskra króna, til mótefnisgerðar og dreifingar hjálpargagna ef svo færi að flensufaraldur brytist út. Tyrknesk stjórnvöld lýstu því aftur á móti yfir í gær að tekist hefði að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu pestarinnar og hvöttu almenning til að halda ró sinni. Enn á eftir að greina veirustofninn sem fundist hefur í rúmenskum fuglum en margt bendir til að þar sé sami stofn á ferðinni. Evrópusambandið hefur því bannað innflutning á lifandi fuglum svo og kjöti og fiðri frá Rúmeníu og Tyrklandi í það minnsta í hálft ár. H5N1-stofninn smitast enn sem komið er ekki á milli manna, þeir sem smitast hafa í Suðaustur-Asíu eiga það sameiginlegt að hafa verið í náinni snertingu við fugla eða hrátt kjöt. Hins vegar vekur það sérfræðingum ugg að veiran hafi fundist í Evrópu því eftir því sem hún dreifist víðar þeim mun líklegra er talið að henni takist að stökkbreytast svo hún geti smitast manna á milli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×