Erlent

Pinter fær bókmenntaverðlaunin

Breska leikritaskáldið Harold Pinter hlaut í morgun Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Sænska akademían tilkynnti í morgun að breska leikritaskáldið hefði hlotið bókmenntaverðlaun nóbels þetta árið. Útnefning þessa 75 ára gamla Lundúnabúa þykir koma á óvart. Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri Tímarits Máls og menningar er þó ekki í vafa um að hann sé vel að heiðrinum kominn. Hún segir Pinter hafa verið áberandi skáld um langan tíma og ritað mörg vitræn og skemmtileg leikrit. Hann hafi alltaf verið í góðum takt við tímann og megi skipta ferli hans í mörg tímabil. Hún segist fyrst hafa séð verk Pinters á sjöunda og áttunda áratugnum, þá hafi hann verið mjög erfiður að því leyti að verk hans hafi grafið mikið í sálarlífi fólks og leikrit hans hafi verið mjög í undirmeðvitundinni. "Svo varð hann rosalega pólitískur," segir Silja og segist sjálf hafa fallið fyrir verkum hans þá. Mörg leikrita Pinters hafa verið sýnd hérlendis, nú síðast Svik sem leikhópurinn Á senunni setti upp í samvinnu við Borgarleikhúsið og leikfélag Akureyrar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×