Erlent

Réttað í Haag í Vukovar-máli

Réttarhald hófst í gær fyrir Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag í máli þriggja fyrrverandi foringja úr júgóslavneska hernum, sem ákærðir eru fyrir vísvitandi fjöldamorð á að minnsta kosti 264 flóttamönnum, sjúklingum og starfsfólki á sjúkrahúsi í bænum Vukovar í Króatíu árið 1991. Vukovar-fjöldamorðin kyntu mjög undir þeim vítahring hatursfullra borgarastríðsátaka sem hlutalýðveldi gamla júgóslavneska sambandsríkisins steyptust í á þessum tíma og enduðu með upplausn ríkisins. Tveir sakborninganna þriggja endurtóku yfirlýsingar um sakleysi sitt fyrir réttinum í gær og skoruðu á dómarana að finna sannleikann að baki grimmdarverkinu og góma þá sem í raun báru ábyrgð á því. Sakborningarnir, Mile Mrksic, Miroslav Radic og Veselin Sljivancanin, eru allir Serbar, Meðal ákæruatriða eru ofsóknir, útrýming, morð og pyntingar. Sljivancanin stýrði umsátri hersins um Vukovar, sem stóð í þrjá mánuði og kostaði að minnsta kosti 1.700 Króata lífið. Bærinn, sem státaði af mörgum miðaldabyggingum, var lagður í rúst. Á síðustu dögum umsátursins fluttu serbneskir hermenn um 400 manns, sem leitað höfðu skjóls fyrir átökunum í sjúkrahúsi bæjarins, út í sveit í rútum. Eftir barsmíðar og pyntingar voru flestir þeirra skotnir og grafnir í fjöldagröf. Í máli saksóknara kom fram að sakborningarnir væru taldir hafa reynt að hrinda í framkvæmd skipun serbneska hershöfðingjans Vojislavs Seselj um að "enginn ústasja [skammaryrði Serba yfir Króata] skyldi sleppa lifandi frá Vukovar".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×