Erlent

Saddam hefur kosningarétt

Rósturnar í Írak stigmagnast eftir því sem nær dregur þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárdrög landsins en hátt í fimmtíu manns létust í hryðjuverkaárásum í gær. Íraskir embættismenn hafa greint frá því að Saddam Hussein geti neytt atkvæðisréttar síns á laugardaginn. Uppreisnarmenn í Írak hafa heitið því að valda sem mestum usla í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um helgina og í gær sýndu þeir að þeim væri alvara. Þrjátíu borgarar biðu bana í tilræði í bænum Tal Afar, nærri sýrlensku landamærunum, í gær en þá ók kona bíl fylltum sprengiefni á markaðstorg bæjarins. 388 hafa beðið bana síðastliðnar tvær vikur í árásum uppreisnarmanna. Undirbúningur fyrir kjörfundinn er í fullum gangi og í gær greindi Abdul Hussein Hindawi, einn kjörstjórnarformannanna, frá því að Saddam Hussein gæti neytt atkvæðisréttar síns, rétt eins og aðrir fangar sem ekki hafa hlotið dóm. Réttarhöld yfir einræðisherranum fyrrverandi hefjast 19. október næstkomandi. Þá skýrði breska ríkisstjórnin frá því í gær að hún hygðist greiða skaðabætur vegna manntjóns og eignaspjalla sem urðu þegar breskir hermenn réðust inn á lögreglustöð í Basra í síðasta mánuði og frelsuðu tvo félaga sína sem þar voru í haldi. Fimm borgarar létust í þeirri árás.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×