Erlent

Flóðasvæði verða kirkjugarðar

Tugir erlendra ferðamanna flúðu flóðasvæðin í Gvatemala í gær, ýmist fótgangandi eða með þyrlum. Stjórnvöld í landinu veltu því fyrir sér hvort ekki væri ráðlegast að líta á flóðasvæðin sem kirkjugarða og leyfa hinum látnu að hvíla undir aurskriðunum, sem flæddu yfir landið á þriðjudaginn eftir úrhellisregn í heila viku. Upplýsingar höfðu borist um 640 manns, sem látist hafa í flóðunum í Mið-Ameríku og Mexíkó. Gvatemala varð verst úti og þar var í gær vitað um 519 látna og hundruða manna var að auki saknað. Eduardo Stein, varaforsti landsins, skýrði frá því að heimilt sé að gera bæjarfélög sem urðu undir flóðinu í heilu lagi formlega að kirkjugörðum til þess að komast hjá því að þurfa að grafa líkin upp. Smithætta væri mikil og engar líkur þykja hvort eð er á því að takast megi að grafa upp alla sem létust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×