Erlent

Harmleikur færir fjandvini saman

Talið er víst að meira en þrjátíu þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum nyrst í Pakistan á laugardaginn, langflestir í Pakistan en á Indlandi hafa hundruð manna einnig farist og frá Afganistan bárust fréttir af því að ein stúlka hefði látist. Þó fer fjarri því að endanleg tala látinna liggi fyrir.Jarðskjálftinn mældist 7,6 stig á Richterkvarða og átti upptök sín í Kasmír-héraði, sem áratugum saman hefur verið eitt helsta þrætuepli Pakistana og Indverja. Harmleikurinn gefur þessum fornu fjandvinum hins vegar fágætt tækifæri til þess að taka höndum saman og glíma við afleiðingar hamfaranna í sameiningu. Einungis fáeinum klukkustundum eftir að jarðskjálftinn reið yfir á laugardaginn hafði Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, rætt í síma við Pervez Mussharraf, leiðtoga Pakistans, til þess að bjóða honum neyðarhjálp og björgunaraðstoð. Utanríkisráðherra Indlands ítrekaði þetta boð í viðræðum við pakistanskan starfsbróður sinn. „Sagan sýnir að þegar náttúruhamfarir verða þá höfum við náð saman á þessu svæði. Þetta er tækifæri fyrir bæði Indland og Pakistan til þess að gleyma ágreiningi sínum," sagði N.M. Prusty, yfirmaður neyðaraðstoðar á skriftstofu alþjóðlegu hjálparsamtakanna CARE á Indlandi. Tjónið varð mest í þeim hluta Kasmír-héraðs, sem Pakistanar hafa haft yfirráð yfir, en bæði löndin krefjast yfirráða yfir öllu héraðinu. Deilurnar hafa þó hjaðnað nokkuð á síðustu misserum. Síðan jarðskjálftinn reið yfir hafa ríkisstjórnir og hjálparstofnanir um heim allan sent neyðaraðstoð og læknasveitir til jarðskjálftasvæðanna, lofað fjárstuðningi og vottað Pakistönum samúð sína. „Við þurfum á alþjóðlegri aðstoð að halda. Við höfum nóg af mannskap, en við þörfnumst fjárhagsaðstoð," sagði Musharraf hershöfðingi, leiðtogi Pakistans, á laugardaginn áður en hann hélt til jarðskjálftasvæðanna. Í gær var hann staddur í Muzaffarabad, höfuðborg pakistanska hlutans í Kasmír



Fleiri fréttir

Sjá meira


×