Erlent

Betri forvarnir eru lykilatriði

Jarðskjálftinn í gær var gríðarlega öflugur, sjö komma sjö á Richter. Þarna hafa þó orðið sterkari skjálftar í gegnum tíðina, enda er Kasmírhérað á flekamótum tveggja jarðskorpufleka sem rekast saman. Til að minnka tjón og mannfall er lykilatriði að byggja betri hús og þróa betra forvarnarkerfi, segir Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur. Ísland er reyndar einnig á flekamótum, en þau eru annars konar. Hér er Evrasíuflekann og Norður-Ameríkuflekann að reka í sundur, en Indlandsflekinn er að rekast undir Evrasíuflekann í Pakistan. "Þarna verða svokallaðir samgengisskjálftar. Indlandshaf og láglendið fyrir sunnan Himalayafjölling ganga undir Himalayafjöllin og þann fleka sem er þar norður við. Við þessa samþjöppun verða jarðskjálftarnir svona gífurlega stórir, þónokkuð miklu stærri en þeir verða hér á landi," segir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur. Þetta má sjá á þessari mynd - láglendið gengur hreinlega undir Himalayafjöllin, sem ýtast upp og afleiðingar þess eru miklir jarðskjálftar. Kasmírhérað er þarna norðan Islamabad, höfuðborgar Pakistans og upptök skjálftans voru nærri héraðshöfuðborginni Muzaffarabad. En úr því að vitað er að þarna verða reglulega stórir skjálftar, er þá ekki hægt að koma í veg fyrir að tjónið verði svona mikið? "Það getur ábyggilega tekið langan tíma," segir Ragnar og kveður stóra málið að byggja betri hús. "Annar möguleiki, í rauninni, er að spá fyrir um skjálftann svo fólk geti komist undan áður en skjálftinn skeður. Það eru alltaf vonir bundnar við að það verði hægt en það gengur nú rólega." Ragnar segir sterkari skjálfta hafa orðið á þessu svæði, en manntjónið sé meira en hann hafi heyrt um áður. Ekki sé þó hæt að treysta því, því heimildir um manntjón í gegnum tíðina séu óáreiðanlegar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×