Erlent

Mannskæður jarðskjálfti í Pakistan

Óttast er að þúsundir hafi farist í mjög öflugum jarðskjálfta sem reið yfir norðurhluta Pakistans, Afganistans og Indlands skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt. Skjálftinn mældist 7,6 stig á Richter og átti upptök sín um áttatíu kílómetra norðnorðaustur af höfuðborg Pakistans, Islamabad. Af fyrstu fregnum að dæma slapp Afganistan nokkuð vel, en í Pakistan þurrkuðust heilu þorpin hreinlega út. Talsmaður Pervez Musharrafs, forseta Pakistans segir að óttast sé að þúsundir hafi farist, bara í Pakistan. Tvær tólf hæða blokkir með sjötíu og fimm íbúðum hrundu í Islamabad og er enn verið að reyna að bjarga fólki undan brakinu. Herinn hefur verið kallaður til aðstoðar fórnarlömbunum og sjálfboðaliðar reyna að grafa í rústum húsa og þorpa með berum höndunum í þeirri von að enn megi bjarga fólki út úr þeim á lífi. Sterkir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, þeir sterkustu allt að fimm komma fimm á Richter. Óljóst er hvernig ástandið er í Indlandshluta Kasmírhéraðs, því símasamband er ekkert eða stopult eftir skjálftann. Það fer þó ekki milli mála að tjónið er gríðarlegt, bæði manntjón og eignatjón. Jarðskjálftar eru tíðir á þessum slóðum, vegna þess að þar eru flekamót. Indlandsflekinn svokallaði, sem er á reki til norðurs rekst þar á Evrasíuflekann, sem gerir það að verkum að land kýtist upp og miklir jarðskjálftar verða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×