Erlent

Á þriðja hundrað talin af

Í það minnsta 250 manns hafa farist í flóðunum í Mið-Ameríku undanfarna daga. Þar af fórust fimmtíu manns í aurskriðu í Gvatemala í vikunni. Óblíð náttúran sýndi enn einu sinni sína verstu hlið á miðvikudaginn þegar heil fjallshlíð fór bókstaflega af stað og færði þorpið Solola í Gvatemala á kaf í leðju og grjóti. Þeir íbúar þorpsins sem komust undan sögðu að miklar drunur hefðu kveðið við og jörðin nötrað skömmu áður en ósköpin dundu yfir. Talið er að fimmtíu manns hafi týnt lífi í þessari mannskæðu aurskriðu, flestir á 100 fermetra stóru svæði. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum á vettvang enda eru vegir víða í sundur og veður ennþá vont. Mikil úrkoma og hvassviðri hefur geisað í Mið-Ameríku í vikunni eftir að fellibylurinn Stan gekk á land. Mest hefur manntjón verið í Gvatemala, þar eru 154 sagðir hafa týnt lífi. 31.450 manns hafa þurft að flýja heimili sín. Í El Salvador eru 65 látnir af völdum flóðanna og 54.000 manns á vergangi og 14 eru taldir af í Nigaragva, Hondúras og Kosta Ríka. Mexíkanar hafa heldur ekki farið varhluta af hamförunum því þar eru sautján sagðir látnir af völdum flóða og annarrar óáran.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×