Erlent

Fimmtungur býr við sára fátækt

Æskulýðsskýrsla Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2005 kom út í vikunni en þar er ljósi varpað á hag 1,2 milljarða ungmenna á aldrinum 15-24 ára víða um heim og framtíðarhorfur þeirra ræddar. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að 200 milljónir unglinga, eða átján prósent allra ungmenna, þurfi að draga fram lífið á innan við einum Bandaríkjadal á dag, um sextíu íslenskum krónum. Ekki er ljóst hvort efnahagur æskulýðsins hefur batnað eða versnað frá því árið 1995 en þá setti Allsherjarþing SÞ sér markmið um að bæta stöðu þessa aldurshóps. Hitt er vitað að 88 milljónir ungmenna eru atvinnulausar og er ástandið verst í Afríku og Mið-Austurlöndum. „Yfirleitt er ungt fólk ráðið síðast í vinnu og rekið fyrst," segir Johan Scholvinck, talsmaður skrifstofu SÞ í efnahags- og samfélagsmálum. Það hljóta hins vegar að teljast góð tíðindi að frá árinu 1995 hefur fjöldi þeirra sem hlotið hafa menntun vaxið hröðum skrefum, til dæmis sækja áttatíu prósent unglinga á gagnfræðaskólaaldri skóla og 100 milljónir ungmenna stunda nám á háskólastigi. Aftur á móti fá 113 milljónir barna enga grunnskólakennslu og 133 milljónir ungmenna eru ólæsar. Í skýrslunni kemur fram að unglingar stundi nú kynlíf fyrr á lífsleiðinni en gangi í hjónaband síðar. Þótt kynlíf utan hjónabands sé því algengara hefur þungunum táningsstúlkna ekki fjölgað. Alnæmi er algengasta dánarorsök ungmenna í heiminum í dag en tíu milljónir eru smitaðar af HIV-veirunni, aðallega í Afríku og Asíu. Skýrsluhöfundar leggja eitt og annað til svo að bæta megi hag æskunnar en grundvallarstef í tillögum þeirra er að aðgerðum verði helst að beina að ungum börnum dagsins í dag því eftir nokkur ár vaxa þau úr grasi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×