Erlent

ESB refsar Úsbekum

Ríki Evrópusambandsins hafa stöðvað sölu á vopnum til Mið-Asíuríkisins Úsbekistans eftir fjöldamorð öryggislögreglu á óbreyttum borgurum í vor. Auk þess verður úsbeskum embættismönnum neitað um vegabréfsáritun til Evrópu. Úsbesk stjórnvöld hafa haldið því fram að um tvö hundruð íslamskir öfgamenn hafi dáið í óeirðunum í Andijan í maí síðastliðnum. Mannréttindasamtök og sjónarvottar segja hins vegar að allt að átta hundruð manns hafi látið lífið, flestir saklausir borgarar. Þetta væru því harkalegustu aðgerðrir stjórnarhers gegn borgurum síðan fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar voru framin árið 1989. Talsmenn ráðherraráðs ESB segja að ákvörðun þess sé tekin eftir að úsbesk stjórnvöld höfnuðu óháðri rannsókn á harmleiknum. Ekki hefur verið greint frá nánari útfærslum á banninu eða hvaða embættismönnum verður neitað um vegabréfsáritun. Réttarhöld yfir þeim sem grunaðir eru um að hafa komið óeirðunum af stað standa nú yfir. Hermenn sem báru vitni í gær segja að sökum myrkurs hafi þeir átt í erfiðleikum með að greina óeirðaseggi frá saklausum borgurum. Að mati mannréttindasamtaka er einungis um sýndarréttarhöld að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×