Innlent

Stjórnarstefnan ógn við samninga

Röng stjórnarstefna hefur leitt til þess að verðbólga er tvöfalt hærri en gert var ráð fyrir þegar kjarasamningar voru undirritaðir. Það er því röng stjórnarstefna sem gerir að verkum að kjarasamningum kann að verða sagt upp um áramót, segir í harðorðri ályktun frá stjórn stéttarfélagsins Eflingar. Verkalýðshreyfingin verður að vera undir það búin að til uppsagnar kjarasamninga komi um næstu áramót, segir í ályktun Eflingar. Þar segir að ástæðan fyrir því að forsendur kjarasamninga séu brostnar sé röng stjórnarstefna, stjórnarstefna þar sem verulega skortir á aðhald í ríkisfjármálum, allar stórframkvæmdir séu í gangi á sama tíma og illa tímasettar breytingar á íbúðalánamarkaði hafi stóraukið þenslu á húsnæðismarkaði. Stjórn Eflingar segir verkalýðsfélög ítrekað hafa varað við þessari þróun en að stjórnvöld hafi hvorki hlustað né gripið til aðgerða. Því hafi kaupmáttur stórs hóps launafólks hrunið. "Stéttarfélögin hafa sín megin staðið við kjarasamningana en ábyrgð stjórnvalda og atvinnurekenda er mikil," segir í ályktuninni. "Spurningin hlýtur að vera hvernig ætla atvinnurekendur og stjórnvöld að bregðast við? Forsendur kjarasamningsins eru skýrar. Hægt er að bregðast við með því að ná samkomulagi innan sérstakrar forsendunefndar, með aðkomu ríkisvaldsins, um það hvernig launafólki verður bætt það sem aflaga hefur farið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×