Lífið

Styttist í brottför Ástarfleysins

Nú hefur Sirkus tekið viðtöl við 40 manns sem sóttu um að komast um borð í Ástarfleyið. "Mun fleiri skráðu sig til leiks en við á Sirkus höfðum þorað að vona en yfir 500 manns skráðu sig. Við hefðum auðveldlega getað tekið viðtöl við yfir 100 manns ef ekki væri svona stutt í að Ástarfleyið sigldi úr höfn, svo áhugaverðir voru þeir sem skráðu sig," segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, kynningarstjóri Sirkuss. Upptökur á Ástarfleyinu eru nú þegar hafnar en öll viðtölin voru tekin upp.  Á þessum fyrstu dögum upptakna hefur safnast geysilega mikið af skemmtilegu myndefni, mun meira en áætlað hafði verið. "Vegna alls þessa magnaða myndefnis hefur Sirkus því tekið þá ákvörðun að fjölga Ástarfleysþáttunum frá því sem áður stóð til," segir Guðmundur Arnar. Hann segir ánægjulegt hversu vel umsækjendur endurspegli það fjölmenningarsamfélag sem Ísland er í dag. "Umsóknir frá fólki sem á rætur að rekja til átta þjóðlanda bárust, en þeir sem eru af erlendu bergi brotnir eiga það sameiginlegt að tala íslensku sem aðaltungumál þrátt fyrir erlendan uppruna. Umsóknir bárust frá fólki með háskólamenntun, verkafólki, nemum, bankastarfsmönnum og svona mætti lengi telja. Sumir hafa verið í löngum samböndum, aðrir hafa aldrei verið í sambandi. Sumir höfðu eytt stórum hluta ævinnar á ferðalagi, aðrir hafa aldrei ferðast út fyrir Ísland," segir Guðmundur Arnar Guðmundsson kynningarstjóri Sirkuss. Í október fara 14 manns af þessum 40, sem komust áfram, til Tyrklands um borð í risastóra glæsisnekkju við strendur Marmaris. Þar fá þátttakendurnir, 7 stelpur og 7 strákar, tækifæri til að kynnast nýju fólki, nýju landi og sjálfum sér upp á nýtt um borð í Ástarfleyinu. Fararstjórinn, Kafteinn Flygenring, mun þar verða þátttakendum innan handar þegar kemur að skemmtunum, samskiptum kynjanna og óræðum reglum ástarinnar. Þátturinn er gerður að erlendri fyrirmynd en Loveboat hefur slegið í gegn um víða veröld og nú er komið að Íslandi. Ástarfleyið er langmetnaðarfyllsta verkefni Sirkuss til þessa en þættirnir verða sýndir í lok október.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.