Innlent

Athuga ástæðu til rannsóknar

Stjórnendur Baugs Group undirbúa skaðabótamál og ætla að kanna hvort efni sé til opinberrar rannsóknar á gerðum fimm einstaklinga vegna aðdraganda Baugsmálsins. Einstaklingarnir fimm eru Styrmir Gunnarsson, Jónína Benediktsdóttir, Jón Gerland Sullenberger, Jón Steinar Gunnlaugsson og Kjartan Gunnarsson. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, sagði í Íslandi í bítið í morgun að Morgunblaðið væri búið að fella grímuna og væri ekki sá hlutlausi fjölmiðill, sem það hefði þóst vera. Það hefði komið í ljós að blaðið væri áróðurstæki og hefði verið notað sem slíkt af ritstjóranum. Í blaðinu í gær hefði sést varnargagn í baráttu hans í þeirri stöðu sem hann væri kominn í eftir að uppljóstranir hefðu komið fram um leynifundi og samsæri sem Styrmir Gunnarsson hefði tekið þátt í og beindust gegn Baugi. Hreinn sagði að fyrst og fremst væri um að ræða einhvers konar áróðursbragð og verið væri að reyna að draga athyglina frá aðalatriðum málsins og beina henni að einhverjum atriðum sem skiptu ekki máli fyrir það sem fram hefði komið og þær vísbendingar sem nú væru uppi um það samráð sem hefði átt sér stað á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins með þátttöku áhrifamikilla manna, þar á meða Kjartans Gunnarssonar. Þetta væri aðalatriðið í málinu og það þyrfti að skoða miklu betur en gert hefði verið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×