Erlent

Afvopnun Norður-Írlands staðreynd

Síðustu vopnunum úr vopnabúrum Írska lýðveldishersins IRA hefur verið eytt. Frá þessu skýrði óháð vopnaeftirlitsnefnd í gær. Þar með ætti vopnaðri baráttu lýðveldissinna gegn Bretum og sambandssinnum að vera lokið. "Afvopnun IRA er nú staðreynd," sagði John de Chastelain, kanadíski hershöfðinginn sem fór fyrir eftirlitsnefndinni á blaðamannafundi í Belfast á Norður-Írlandi í gær. Hann kynnti á fundinum ítarlega skýrslu nefndarinnar en fyrr um daginn hafði írsku og bresku ríkisstjórnunum verið kynnt efni hennar. Þar voru rakin störf nefndarinnar síðustu árin en stærstur hluti afvopnunarinnar fór þó fram á síðastliðnum vikum eftir að IRA lýsti yfir í júlí síðastliðnum að vopnaðri baráttu sinni væri lokið. Í vopnabúrum IRA á Írlandi og Norður-Írlandi var að finna vígbúnað af ýmsu tagi en stærstur hluti vopnanna fékk herinn snemma á níunda áratugnum frá Líbíumönnum. Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, sagði afvopnunina vera tímamótaviðburð. "Margir töldu að þessi dagur myndi aldrei renna upp. Margir töldu að hann hefði fyrir löngu átt að vera runninn upp. Nú hefur það loksins gerst." Í svipaðan streng tók Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem sagði afvopnunina eiga að greiða fyrir friði í landinu. Martin McGuinness, aðalsamningamaður IRA, taldi að nú ætti efa um afvopnun samtakanna að hafa verið eytt. "Málið snýst hins vegar um meira en vopn, það snýst um að koma friðarferlinu á skrið á ný og um framtíð Írlands." Sambandssinnar kveðast hins vegar vera langt frá því sannfærðir um að IRA hefði raunverulega afvopnast. Séra Ian Paisley, leiðtogi sambandssinna, sagði að lítið mark væri takandi á skýrslu vopnaeftirlitsnefndarinnar, sérstaklega vegna þess að IRA valdi klerkana tvo sem sitja í henni. Meþódistapresturinn séra Harold Good, sem sat í nefndinni sem fulltrúi mótmælenda, sagði hins vegar að enginn vafi léki á að afvopnunin væri staðreynd. Af þessum sökum er talið að enn verði nokkur bið á að samningaviðræður sambandssinna og lýðræðissinna hefjist á nýjan leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×