Erlent

Hefði frekar haldið sig heima

Aron Pálmi Ágústsson segir að hann hefði frekar haldið sig heima þegar fellibylurinn Ríta reið yfir en að fara burt með Rauða krossinum hefði hann búist við að verða handtekinn. Lögreglumenn í Texas handtóku Aron Pálma í nótt, að íslenskum tíma, þar sem hann var staddur í neyðarskýli Rauða krossins og fluttu hann í fangelsi. Aron Pálmi segir lögreglumenn hafa komið upp að sér í neyðarskýlinu og beðið sig um að koma út fyrir. Þar sögðu þeir honum að hann mætti ekki dvelja í skýlinu, létu hann sækja farangur sinn og fluttu hann í fangelsi þar sem Aroni Pálma er haldið þó hann verði ekki ákærður fyrir neitt. Hann verður í fangelsinu þar til hann og fleira fólk fer í rútu til San Antonio þar sem Aron Pálmi verður aftur færður í fangelsi. Aron Pálmi hefur reynt að ná sambandi við RJF-stuðningshóp sinn og íslensk yfirvöld en það hafði ekkert gengið nú skömmu fyrir hádegi. Handtakan síðustu nótt hefur tekið mjög á Aron Pálma. Hann segist svo niðurdreginn eftir handtökuna að það sé engu líkt. Hefði hann grunað að svona kynni að fara hefði hann frekar kosið að vera í heimabæ sínum Beaumont meðan fellibylurinn Ríta reið yfir frekar en að flýja bæinn með Rauða krossinum til þess eins að lenda í fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×