Lífið

Íslandsmeistaramótið í magadansi

Harðar bassaaríur og þung karlakóralög viku fyrir mjúkum línum og seiðandi hreyfingum þegar Íslandsmeistaramótið í magadansi fór fram í húsakynnum Karlakórs Reykjavíkur í gærkvöldi. Íslandsmeistarar í flokkum áhuga- og atvinnumanna voru krýndir en það var framkvæmdastjóri úr Árbænum sem sigraði í flokki áhugamanna. Magadansíþróttin, eða öllu heldur magadanslistin, nýtur sívaxandi hylli íslenskra kvenna um þessar mundir og jafnvel talið að nokkur hundruð kvenna, auk þriggja karla, stundi þennan seiðandi dans að staðaldri. Það var enda margt um manninn þegar Íslandsmeistaramót var haldið í greininni í gærkvöldi en til leiks voru mættar 13 konur sem tókust á í dansi. Keppt var í tveimur flokkum, atvinnumanna og áhugamanna, en í flokki atvinnumanna eru vanari dansarar og kennarar. Kynnir kvöldsins var engin önnur en sjálf magadansmær Íslands, Helga Braga Jónsdóttir. Eftir æsispennandi dansa - þar sem ekkert var gefið eftir - voru úrslit í báðum flokkum ljós. Það var Rosana Ragimova sem kom sá, dillaði sér og sigraði í flokki atvinnumanna en hún, líkt og fleiri í þeim flokki, hefur haft veg og vanda af því að kenna íslenskum konum listina við að bera magadansbeltið svo sómi sé af. Senuþjófur kvöldsins var þó framkvæmdastjóri úr Árbænum sem eftir að hafa stundað dansinn í einungis eitt ár þótti best í hópi áhugamanna. Arna Guðlaug Einarsdóttir hefur undanfarið árið stundað magadansinn af kappi milli þess að stýra fyriræki í þekkingariðnaði. Hún sagði í samtali við fréttastofuna í dag að sigurinn hefði komið henni á óvart. Hún kveðst ætla að mæta sterk til leiks að ári þegar hún keppir í hópi atvinnumanna í kjölfar sigursins í gær. Að lokinni keppni fóru svo keppendur og fögnuðu á danshúsum í miðborginni. Þar var þó hefðbundnari dans stiginn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.