Erlent

Afl Rítu komið niður í einn

Afl fellibylsins Rítu hefur minnkað mjög og er nú aðeins einn á fellibyljakvarðanum en var kominn upp í fimm þegar mest var áður en hann náði ströndum Bandaríkjanna. Ríta gekk á land í Texas og Louisiana klukkan hálfátta í morgun að íslenskum tíma. Miðja fellibylsins fór yfir suðvesturströnd Louisiana og mældist vindhraðinn þá tæpir tvö hundruð kílómetrar á klukkustund, eða styrkleikastig þrjú. Ríta hefur þegar farið yfir Galveston og þar standa nokkur hús í ljósum logum en nær allir íbúar voru flúnir. Ástandið í Houston er heldur skárra en óttast var, að sögn Ingólfs Bjarna Sigfússonar fréttamanns sem staddur er í borginni. Tré hafa fallið og flóð er á stöku stað þar sem bylurinn hefur farið yfir. Að minnsta kosti hálf milljón íbúa er rafmagnslaus og tilkynnt hefur verið að nokkuð hafi verið um innbrot. Engar fréttir hafa hins vegar borist af manntjóni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×