Innlent

Vill verndaða vinnustaði burt

Verndaða vinnustaði fyrir fatlaða ætti að leggja niður í núverandi mynd. Þetta segir írskur iðjuþjálfi sem hélt fyrirlestur um atvinnumál fatlaðra hér á landi. Höfuðáherslu á að leggja á að skapa fötluðum tækifæri til að komast út á almennan vinnumarkað. Á þriðja hundrað fatlaðir íslendingar starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði. Hanna Lilja Bjarnadóttir er ein þeirra, en undanfarið ár hefur hún starfað á Fréttablaðinu. Hanna segir mjög fínt að vinna þar. Hún sjái um kaffivélarnar og pappírinn auk þess að sjá um að allt sé fínt. Aðspurð segist hún vinna til klukkan tvö á daginn. Christy Lynch iðjuþjálfi segir að með því að beita aðferð sem nefnist Atvinna með stuðningi hafi menn komist að því fólk sem sé að jafnaði mjög fatlað geti komið til starfa á vinnumarkaðnum og lagt sitt af mörkum. Það sé mun betra fyrir hinn fatlaða og gefi lífinu tilgang og hann finni að hann leggi margt af mörkum til þjóðfélagsins. Christy Lynch er menntaður iðjuþjálfi og hefur haldið fyrirlestra víða um heim um mikilvægi þess að fatlaðir komist út á hinn almenna vinnumarkað með stuðningi hins opinbera og fyrirtækjanna sjálfra. Hann vill hreinlega að verndaðir vinnustaðir verði lagðir niður. Hann segist vilja að fatlað fólk sé úti í samfélaginu og lifi lífinu til hins ýtrasta eins og aðrir. Allir sem hafi gert þetta segist lifa betra lífi, séu jákvæðari og fái meiri lífsfyllingu. Þetta eigi að gera fyrir fatlaða. Þeir séu oft hræddir því þetta sé þeim framandi en með þessu fái þeir meiri stuðning. Hann telur tækifærin fyrir Íslendinga vera fjölmörg og að flestir fatlaðir ættu að geta fengið vinnu. Hann bendir á að landið sé fámennt og því sé fjöldi fatlaðra ekki mikill. Efnahagur landsins sé mjög góður og þúsundir atvinnutækifæra séu fyrir fatlaða. Það þurfi bara að láta atvinnurekendur og fatlaða mætast á miðri leið. Starfið á Fréttablaðinu skiptir Hönnu miklu máli. Hún segir að verkefnið Atvinna með stuðningi hjálpi fötluðum mikið. Þó séu sumir sem þurfi alls ekki á slíkri aðstoð að halda, þeir séu fullfærir um að komast á vinnumarkaðinn á eigin forsendum. Hanna segir enn fremur að henni hafi fundist það gott að eiga kost á því að komast í þetta starf og þeir sem taki þátt í verkefninu hafi verið fljótari að fá vinnu en hinir. Hún ætli sér að vinna lengi á Fréttablaðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×