Innlent

Les fræðingum pistilinn

"Ég ætla sko að láta þá heyra það," segir Sigurður Ragnar Kristjánsson en hann býr á sambýli á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. Á morgun ætlar hann að halda fyrirlestur á ráðstefnu sem Svæðisskrifstofan stendur fyrir í Gullinhömrum og hefst hún í dag en þar verða fjölmargir fyrirlesarar sem segja frá niðurstöðum rannsókna og miðla af reynslu sinni í málefnum fatlaðra. "Mér líður ekki vel á sambýlinu, ég vil bara fá að vera frjáls og ráða hvenær ég geri allt það sem ég þarf að gera," útskýrir Sigurður sem vonast eftir því að komast í þjónustuíbúð sem fyrst en hann hefur búið í níu ár á sambýlinu. En ekki fá allir það óþvegið hjá Sigurði því hann segir að fólk almennt taki honum vel en hann er þroskahamlaður auk þess sem hægri fótur hans er ögn styttri en sá vinstri. "Ég verð ekkert var við neina fordóma hjá fólki en ríkisstjórnin lætur sem við fötluðu séum ekki til," bætir hann við. Sigurður vinnur í Ásgarði í Mosfellsbæ sem er verndaður vinnustaður en þar eru meðal annars smíðuð leikföng og munir úr tré.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×