Erlent

Mikill viðbúnaður vegna Rítu

Mikill viðbúnaður er í Texas vegna Rítu. Fólk sem býr við ströndina hefur verið hvatt til að flýja heimili sín. Þúsundir eru þegar farnar að huga að brottflutningi frá Galveston og borgarstjórinn í Houston hefur beint því til borgarbúa að búa sig undir það versta. Óttast er að fellibylurinn Ríta, sem er orðin fjórða stigs fellibylur og þegar jafnöflugur og Katrín þegar hún skall á suðurströnd Bandaríkjanna, kunni að valda mikilli eyðileggingu þegar hann nær landi á laugardag. Íbúar í Flórída Keys eyjaklasanum, syðst í Bandaríkjunum, sluppu með skrekkinn að þessu sinni þegar Rita fór fram hjá þeim í nótt. Mikil úrkoma og vindur fylgdi fellibylnum en tjón af völdum hans varð þó ekki mikið. Ríta hefur styrkst gríðarlega á leið sinni yfir Mexíkóflóa og æðir áfram í átt að Texasströndum á tæplega 220 kílómetra hraða á klukkustund. Öllum íbúum í borginni Galveston í Texas hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín þar sem óttast er að gríðarleg flóðbylgja myndist þegar Ríta nær landi. Borgarstjórinn í Houston hefur varað íbúa við því versta og hvetur þá sem búa við ströndina að flýja. David Paulison, yfirmaður Almannavarna, hvetur alla íbúa við Mexíkóflóa að fylgjast með storminum og segir að yfirmaður Fellibyljamiðstöðvarinnar hafi sagt að fellibylurinn yrði þriðja eða fjórða stigs. Fellibylurinn geti orðið mjög hættulegur eftir að hann fari inn í flóann þar sem sjór sé mjög heitur. Því verði fólk að hlusta á yfirvöld ef þau segi því að yfirgefa svæðið. Tugþúsundir lögreglu- og björgunarmanna hafa verið settar í viðbragðsstöðu vegna ástandsins. Talið er að Ríta geti einnig valdið usla í Louisiana og hefur því öllum þeim, sem snúið höfðu aftur til New Orleans, verið skipað að fara aftur burt. Mikil hræðsla hefur aftur gripið um sig í Louisiana, en meira en þúsund manns hafa fundist látnir eftir að fellibylurinn Katrín gekk yfir suðurströnd Bandaríkjanna í síðasta mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×